N.k. sunnudag, 28. nóvember, er fyrsti sunnudagur í aðventu. Þennan dag verða tvær athafnir í Breiðholtskirkju:
Kl. 11 verður fjölskylduguðsþjónusta.
Börn úr TTT starfinu aðstoða í messunni, setja m.a. upp líkan af fjárhúsinu í Betlehem og við tendrum fyrsta kertið á aðventukransinum. Broskórinn syngur og sögð verður saga sem á erindi bæði við börn og fullorðna.
Kl. 20 verður aðventuhátíð safnaðarins
Boðið er uppá fjölbreytta dagskrá, sem miðuð er við alla fjölskylduna:
Börn tendra ljós á fyrsta kertinu á aðventukransinum. Kór Breiðholtskirkju og Eldri barnakórinn flytja aðventu- og jólasöngva undir stjórn organistans, Julian Edward Isaacs. Gunnhildur Halla Bragadóttir syngur einsöng. Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Anna Halldóra Snorradóttir leika á flautur, fermingarbörn flytja helgileik og Júlíus Thorarensen, fv. verslunarmaður og formaður Kórs Breiðholtskirkju flytur aðventuhugleiðingu. Hátíðinni lýkur með helgistund við kertaljós þar sem barnakórinn leiðir sönginn.
Á eftir verður boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur í safnaðarheimilinu og fermingarbörn selja friðarkerti til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar.
Aðventusamkomurnar hafa löngum verið miklar hátíðarstundir í safnaðarlífinu og mörgum til gleði og uppbyggingar við upphaf undirbúnings jóla. Vona ég að svo verði einnig í ár og vil því nota þetta tækifæri til að hvetja sóknarbúa, og aðra þá sem áhuga hafa, til að fjölmenna við þessa athöfn og hefja þannig jólaundirbúninginn með góðri stund í húsi Drottins.