Jólagjöf Breiðholtskirkju – tónleikar kórsins

Hinir hefðbundnu og rómuðu jólatónleikar Kórs Breiðholtskirkju verða sunnudagskvöldið, 8. desember, kl. 20, á öðrum sunnudagi í aðventu. Kórinn syngur meðal annars aðventu- og jólatónlist í útsetningum kórstjórans.  Hátíð ljóssins og fæðing frelsarans hefur verið haldin hátíðleg á Íslandi í meira en 1100 ár og tónlist hefur alltaf skipað stóran sess í  jólahaldinu. Sumt af jólatónlistinni sem kórinn flytur á rætur sínar að rekja til tímans um og eftir siðaskipti en einnig eru lög og textar sem eru enn eldri. Þannig verður frumflutt útsetning á jólasálminum  A Solis Ortus Cardine eða Svo vítt um heim sem sólin fer, eftir Coelius Sedulius sem uppi var á 5. öld. Á milli verka rísa gestir úr sætum og syngja saman jólalög við orgelundirleik.

Hljóðfæraleikarar og einsöngvarar úr röðum kórfélaga glæða tónlistina töfrum sínum. Þannig syngja einsöng þær Ásta Sigríður Arnardóttir, Bergþóra Linda Ægisdóttir og Júlía Traustadóttir, en Hildigunnur Halldórsdóttir leikur á fiðlu, Össur Ingi Jónsson á óbó og englahorn og Katrin Heymann á flautu. Kórnum til aðstoðar  á tónleikunum eru þeir Steingrímur Þórhallsson á orgel og Ágúst Ingi Ágústsson á píanó. Stjórnandi er Örn Magnússon.

Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Örn Magnússon og Kór Breiðholtskirkju