HIÐ EIÍFA LJÓS er yfirskrift tónleika Kórs Breiðholtskirkju sem verða nú á laugardaginn 5. mars í tjaldkirkjunni og hefjast klukkan 16:00.
Á efnisskrá eru tvö verk. Annarsvega tónverkið Rennur upp um nótt eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson fyrir kór, orgel, hörpu, selló og tvo einsöngvara auk þess sem leikið er á klukkuspil kirkjunnar. Verkið er í níu þáttum og er samið við sjö ljóð Ísaks Harðarsonar úr samnefndri ljóðabók en auk þess nýtir tónskáldið tvo af lofgjörðarsálmum biblíunnar.
Verkið samdi Hróðmar fyrir Kór Breiðholtskirkju og var það frumflutt á 40 ára afmæli kórsins og 25 ára afmæli kirkjunnar í mars 2013.
Síðara verkið á tónleikunum er eitt áhrifamesta kirkjutónverk 20. aldarinnar, Requiem Op. 9 eftir Maurice Duruflé. Verkið er líkt og verk Hróðmars í níu köflum og er fyrir kór, orgel, selló og tvo einsöngvara auk barnakórs. Duruflé sem var franskur organisti, samdi verkið í síðari heimsstyrjöldinni og var það frumflutt árið 1947.
Þeir sem koma fram á tónleikunum auk Kórs Breiðholtskirkju eru organistarnir Guðný Einarsdóttir og Steingrímur Þórhallsson; söngvararnir Marta Guðrún Halldórsdóttir og Hafsteinn Þórólfsson; Elísabet Waage hörpuleikari, Sigurður Halldórsson sellóleikari að ógleymdum stúlknakór úr Domus Vox undir stjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur.
Stjórnandi á tónleikunum er Örn Magnússon.